Færsluflokkur: Bloggar

Aðalfundur Víðförla

Sælir félagar.

Aðalfundur Víðförla var haldinn í kvöld í húsnæði SVFR. og voru mættir 13 félagar af 19. verður það að teljast góð mæting þar sem 4 Víðförlar eru staddir erlendis. Á fundinum var sumarið 2011 gert upp og kom í ljós að það var eitt versta sumar hjá Víðförla hvað aflabrögð varðar en aðeins veiddust nokkrir tugir fiska (34) miðað við 339 sumarið 2009. Það ríkir kreppa í aflabrögðum Víðförlafélaga árið 2011. Það er samt í góðu lagi það kemur sumar eftir 2011. Að vanda fór formaður yfir Víðförlaferðir sumarsins og kom fram hjá honum að þær hafi allar verið farnar eins og vant er í góðu veðri og í góðum félagsskap en því miður léleg veiði. Þá kemur spurningin með veiðitúra en stærsti hluti þeirra er félagsskapurinn, aðbúnaðurinn og náttúran. Gott dæmi um það er okkar ágæti félagi Sage specialist kemur alla leið frá Afganistan og fer með okkur í 2 nokkuð dýra veiðitúra. Fékk einn fisk og var sko alveg alsæll. Bara að komast í veiði. Voru málin rædd á breiðum grundvelli og eins og alltaf urðu skemmtilegar umræður um veiðina 2011 og líka um framtíðina árið 2012. Ég ætla ekkert að fara út í smáatriði hvað það varðar en eitt get ég sagt með heinni samvisku að sjaldan eða aldrei hefur ríkt eins mikill einhugur hjá okkur Víðförlafélögum að gera betur næsta sumar.

Þá var eins og vant er veitt verðlaun fyrir aflabröð sumarsins og þau fengu, Birtingurinn fyrir stærsta fisk Víðförlafélaga sumarið 2011 9.8kg. lax úr Laxá í Aðaldal.

Fyrir flesta fiska veidda í veiðiferðum Víðförla fékk 10pundarinn alls 10 stk.

Fyrir stærsta fiskinn veiddan í veiðiferðum Viðförla fékk flotarinn 7,5kg. veiddan í Laxá í Leir.

Eftir ljúfengan kvöldverð var haldið áfram og þá fór fram kosning í stjórn Víðförla. Eftir mikið japl, jam og fuður var kosinn nýr formaður og var sú kosning eiginlega "rússnesk" allir samhljóða. Var það 10pundarinn sem hlaut þessa kosningu var honum ákaft fagnað af félagsmönnum. Þá er þess vert að geta að fráfarandi formanni voru þökkuð góð störf í þágu Víðförla í gegnum tíðna og skálað fyrir honum og hrópað 3 falt húrra fyrir honum og Víðförla.

Þá er þess að geta 20 félagsmaðurinn var tekinn í Víðförlamanna tölu og hlaut hann viðurnefnið

"Tvíhendan" Víðförlafélagar koma sterkir 2012.

Kv. JM.


Fundarboð

Sælir félagar.

Ég vil bara ítreka og minna ykkur félagar á aðalfundinn á morgun og vil ég hvetja menn til þess að vera mættir fyrir kl. 18:30.

Fundurinn hefst stundvíslega kl. 18:30

Kveðja Hattarinn.


Aðalfundur Víðförla.

Sælir félagar.

Dagsetning aðalfundar Viðförla hefur verið ákveðin föstudaginn 21október n.k. og hefst hann stundvíslega kl.18:30. Fundarstaður hefur verið ákveðinn og verða ykkur sendar upplýsingar um hann í pósti fljótlega. Dagskrá fundarins er hefðbundin samkvæmt lögum félagsins og af honum loknum mun verða skemmtileg myndasýning frá m.a eldri ferðum Víðförlafélaga. Vonandi eigum við eftir að eiga ánægjulega kvöldstund saman félagarnir og gerum vel við okkur í mat og drykk.

Nánar í pósti.

Kv. Hattarinn.


Langá.

Setti inn myndir frá Langártúrnum.

Aðalfundur Víðförla

Ágætu félagsmenn.Nú senn líður að vertíðarlokum sem þýðir að uppgjör fyrir sumarið er framundan.Eins og þið vitið höfum við haldið aðalfund Víðförla í október samkvæmt lögum félagsins.Þá er í lögunum að eftir fundinn verði sjóður hans á núlli.Mér hefur tekist að nurla saman smá sjóði þannig að við ættum að geta átt notalega stund saman félagarnir og látið vel að okkur í bæði mat og drykk.Í fyrstu atrennu þá hef ég hugsað mér laugardaginn 22 október og til vara föstudaginn 21.Laugardagurinn væri betri.

Látið mig vita hvort þessi dagur þ.e. 22 henti ykkur.

Staður tími nánar auglýstur síðar.Kv. JM.

Salmon River, Pulaski ... eða eins og ég vill kalla hana Laxá í Pulaski

Sælir félagar

Í  nokkurra klukkustunda akstur norður af Manhattan er að finna eina frægustu laxveiðiá í austur-hluta Bandaríkjanna – Salmon River og er hún oft kennd við smábæinn Pulaski – sumsagt “Laxá í Pulaski”.

Það var mikil eftirvænting og spenningur þegar ég og veiðifélagi minn Pétur J. Petersen ókum af stað frá Manhattan síðastliðinn föstudag og Pétur að leggja í sinn fyrsta alvöru laxveiðitúr. Við áttum veiðar laugardag og sunnudag á svæði í ánni sem kallað er Douglaston Salmon Run. Veiðileyfi fyrir stöngina kostaði $45 á dag þannig að ekki er dýrtíðinni fyrir að fara og vorum við með sitt hvora stöngina báða dagana.

 

Í Salmon River ganga Coho lax, King Salmon og Steelhead auk þess sem eitthvað er af urriða og Atlantshafslaxi. Þar sem þetta var okkar fyrsta ferð vissum við lítið í hvað við vorum að fara og var veiðiplanið því að taka "íslensku leiðina” bara á þetta: túbuboxin með í för sem og hefðbundnar laxaflugur.

 

Klukkan 6 á laugardagsmorgni vorum við mættir á árbakkann og höfðum ákveðið að hefja veiðar í hyl sem heitir Joss Hole og er nokkuð hefðbundinn en frekar langur hylur sem rennur hraustlega í en breiðir svo úr sér og getur fiskur legið frá því þar sem fellur í hann og niður á brot. Við skyldum fljótlega betur verð veiðileyfa því í þessum hyl voru ásamt okkur að veiða svona 10-12 aðrir veiðimenn á báðum bökkum en sannaðist fljótt að í þessu sem öðru að þröngt mega sáttir sitja.

 

Bar nú fátt til tíðinda þar til um 10 leytið þegar fyrsta gangan kom …. og boyohboy kom ganga. Ég hef veitt um allar koppagrundir frá unga aldri en ég hef ALDREI nokkurn tíman séð annað eins. Við fylgdumst með löxum koma upp grynningar fyrir neðan hylinn ekki í tuga tali … í hundraða tali … hálfir upp úr ánni stökkvandi og byltandi sér og var þetta eins og að vera í miðri náttúrulífsmynd ala David Attenborough.

Og Joss Hole fylltist af laxi.

Hófust nú veiðar af miklu kappi … menn hrópuðu með reglulegu millibili “fish-on”, “going up”, “going down” og nú kom sér vel að veiðimenn eru kurteisir og samheldinn hópur því auðvitað þurftu menn að draga í land meðan nágranninn landaði. En “íslenska leiðin” var engan veginn að gera sig – allt í kringum okkur félagana var verið að setja í og landa fiskum, stundum margir með lax á í einu en við félagarnir fengum varla högg …  Þýska Snældan, Frances, Blue Charm, Sunray, Krafla og hvað þær heita allar þessar elskur hlutu akkúrat enga náð fyrir augum ammrískra Coho laxa.

 

Þegar líða fór á daginn og gæftaleysi okkar félaganna var farið að vera pínlegt og pirrandi siktaði ég út þann sem mér fannst vera afladrýgstur af veiðifélögum okkar í Joss Hole og næst þegar hann var búinn að landa og sleppa laxi vatt ég mér að honum og bar mig frekar aumlega. Charles - nýi vinur minn frá New Jersey - gaf sér tíma til að hjálpa vankunnugum Íslendingi. Lét mig umsvifalaust pakka saman túbunum og hefðbundnu laxaflugunum og lét mig opna töskuna með fluguboxunum. En það var ekki fyrr en fluguboxin mín úr Laxá í Þing opnuðust að kallinn taldi að ég ætti von: honum leyst vel á Þingeyjing, Hólmfríði, Rektorinn og svo taldi hann að Flæðarmúsin og Heimasætan gætu gert sig sem og Nobblerarnir mínir. Svo var mér kurteislega – en ákveðið - sagt að hætta þessum þverköstum og niðurfyrirmigköstum. “Marsstin; you always have to cast 10 o´clock to 2 o´clock and then lift … and use a heavy split shot on your leader” Þannig að ekki bara átti ég að nota flugurnar úr Mývatnssveitinni heldur átti ég að veiða upstream.

 

Til að gera langa sögu stutta þá forum við að sjálfsögðu í einu og öllu að ráðum þess gamla og það var eins og við manninn mælt – við fórum að setja í hann. Eftir þessa kennslustund í veiði (og hógværð) og þrotlausar æfingar á laugardeginum var sunnudagurinn dagurinn okkar og landaði ég 20-25 löxum og missti tugi annarra. Veiðifélagi minn náði Maríulaxinum – 16 punda hæng sem tók stóra Flæðamús og ekki amalegt að hefja ferillinn með svona alvöru laxi á flugu auk þess sem hann setti í fjölda annarra fiska.

 

Og ég get sagt það með góðri samvisku að Coho lax gefur þeim “íslenska” ekkert eftir í baráttuvilja og leikgleði og stærðin var alveg til fyrirmyndar. Mest laxar í kringum 15 pund en nokkrir minni en líka margir stærri og þó að við höfum nú ekki náð 20 punda múrnum þá sáum við nokkra 20-30 punda laxa dregna á land og þvílíkir drekar.

 

Leyfilegt er að taka sér til matar 3 laxa á dag og þrátt fyrir að burður á nokkrum 15/16 punda löxum í gegnum 3 km skóglendi sé engin sérstök skemmtiganga þá er það vel þess virði því bragðgóður er hann.

 

Og svo gengur Steelhead og King Salmon í október ……   Devil

kveðja - Marteinn

 

Setti inn nokkrar myndir.

 


Langá 2011

Sælir félagar.

Nú er stutt stórra högga á milli. Nú er það síðasti Víðförlatúr ársins og nú skal haldið til veiða í hina margrómuðu Langá á Mýrum. Þeir Víðförlafélagar sem fara þessa ferð eru 10pundarinn, Hattarinn, Veiðihundurinn og Hængurinn. Þessi ferð var ákveðin þegar við vorum í Vatnamótunum í vor og var þar með okkur einn af aðalgædunum í Langánni. Hann fékk einn dag, á morgun og veiðum við samfellt frá 08:00 -  20:00. Við erum með allar stangirnar en með okkur er all vænn hópur af vöskum veiðimönnum sem tilbúnir að fórna sér fyrir málstaðinn. Það er að skila inn góðum afla. Veðrið er loksins farið að vera svolítið veiðilegt því það hefur svo sannanlega vantað rigninguna á vesturlandið í sumar og nú í haust. Vonandi að þessi væti geri það sem vantaði að koma með súrefni í ána. Þetta verður bara gaman.

Kveðja Hattarinn.


Ferðin í Laxá í Leir

Sælir ágætu félagsmenn.

Ég ætla að segja ykkur í stuttu máli frá ferðinni nú á dögunum í Laxá. Við vorum mættir á svæðið um 2 leitið þann 12 sept. og voru allir spenntir eins og vant er við upphaf veiðiferðar. Vid ræddum við veiðimenn sem voru að hætta og hafði verið tregt hjá þeim m.a. vegna þurrka og vatnsleysis. Það minkaði ekkert áhugann hjá okkur að heyra svona þeir kunna bara ekkert að veiða. Jæja það var dregið um svæði og svo höskuðu menn sér af stað. Það var ekki ofsögum sagt með vatnið, áin var alveg niður í grjóti og við bættist hjá okkur að það var orðið bálhvasst niður við á. Við Steini drógum Miðfellsfljótið og þar skorti hvorki vatn né fiska enda leið ekki langur tími þangað til ég setti íann og landaði einum sex punda og nokkru seinna einum 5 punda. Það voru einu fiskarnir sem komu á land þann daginn. Það kom í ljós um kvöldið að það var lítill fiskur fyrir ofan Miðfellsfljótið því áin var svo vatnslítil. Hvað um það áfram var haldið og það smá þokaðist á fiskur og fiskur og að endingu náðum við 13 löxum sem verður að teljast mjög gott miðað við aðstæður. Það hefur oft verið meiri fiskur í ánni og þá sérstaklega í efri ánni. Ég heyrði eina skýringu sem getur verið rétt að fiskurinn þar sé genginn uppí vatn og komi ekki niður fyrr en vatnið eykst aftur í ánni. Þessi veiðiferð var virkilega skemmtileg með góðum félögum og frábærum aðbúnaði.

Setti inn myndir.

Hattarinn.

 

 


Laxá í Leirársveit.

Sælir félagar.

Nú styttist heldur betur í næstu Víðförla ferð en hún verður nú á mánudaginn 12 - 14 september. Þeir Víðförlafélagar sem fara í þá ferð eru 10pundarinn, Flotarinn, Ormurinn, Hattarinn, Veiði-hundurinn og Sage-specialist og 5 gestir. Þetta er ekki árennilegur hópur fyrir laxinn en fyrir okkur er þetta flottur hópur. Veiðin í Laxánni hefur verið mjög góður og í þessum skrifuðum orðum hafa veiðst um 830 laxar en í fyrra voru þeir 1175. Þess ber að geta að það er næstum því 3 vikur eftir af veiðitímanum og við ekki farnir að renna enn þannig að hún verður með svipaðar tölur og í fyrra. Ég vil gjarnan biðja ykkur ágætu félagar að fara nú út í garð hjá ykkur í ljóskiptunum í kvöld og dansa fyrir okkur regndansinn. Það verður algjör sprengja í ánni næst þegar rignir duglega í Svínadalnum en það er smá möguleiki á þriðjudaginn en spáin segir miðvikudaginn. Svo allir út að dansa. Við ætlum að mæta í hús kl. 14:00 á mánudag og hefjum við veiðar kl. 15:00 og veiðum til kl. 21:00. Hjá okkur verður skiptingin á stangir þannig að Veiðihundurinn og Ormurinn koma saman, Hattarinn og Flotarinn, 10pundarinn og frúin, Ragnar og Sage-speciallist og hinir sjá um sig sjálfir.

Þetta verður bara gaman.      Kveðja Hattarinn.


Ferðin í Hróarslæk.

Sælir félagar.

Eins og þið vitið var mikill spenningur yfir ferðinni í Hróarslækinn og þar átti sko að taka þá nokkra og það helst stóra. Við komu í veiðihús kom í ljós að það var engu logið með það að þetta er eitthvað það flottasta veiðihús sem maður hefur komið í þar sem ekki er skyldufæði og jók það enn á bjartsýnina. Veiðibókin sagði reyndar að aðeins 19 laxar höfðu veiðst og slæðingur af bleykju og urriða en það skipti engu þeir kunna bara ekkert að veiða. En í stuttu máli var að eftir fyrstu vaktina og mikla yfirferð yfir ána þá komumst við að því að það var bara enginn fiskur í ánni svo einfalt var það nú. Nú voru góð ráð dýr, hvað er til ráða. Að endingu var haft samband við Lax-á og sögðum við þeim farir okkar ekki sléttar hvað varðar fisk í ánni. Hvað um það þeir buðu okkur að fara í staðinn í Ytri- Rangá þ.e. efsta svæðið Heiði/Bjallalæk sem við þáðum. Var það ólíkt skárri kostur því þá vorum við allavega ekki í fisklausri á. Engann sáum við þó laxinn en náðum 3 urriðum og mistum aðra þrjá fiska. Sem sagt þetta endaði ágætlega. Maður spyr sig hvernig getur svona spræna eins og Hróarslækur dottið úr yfir 400 löxum niður í 50 á milli ára, maður spyr sig. Hefur það kannski eitthvað með sleppingar að gera???? Hvað um veiðina, gott veður, frábært veiðihús og félagsskapurinn bara mannbætandi og maturinn ljúfur. Við látum ekki litla veiði skemma svoleiðis stemmingu.

Kveðja Hattarinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband