Færsluflokkur: Bloggar

Árið framundan.

Sælir félagar.

Ég vil byrja á því að óska ykkur öllum og fjölskyldum ykkar gleðilegs árs með von um feng og farsæld á komandi ári með þakklæti fyrir samveru og samvinnu á liðnu ári.

Nú hefur komið í ljós m.a. hjá Svfr. að ekki verður um verðhækkanir hjá þeim á næsta ári og einnig hef ég heyrt að Lax-á hækki ekki eða allavega mjög lítið veiðileyfin hjá sér. Mér finnst þetta mjög virðingarvert hjá bæði veiðiréttareigendum og leigutökum um að taka saman höndum og vinna saman til þess að koma í veg fyrir algjört hrun í veiðileyfasölu á næsta ári og árum.

Þar sem ekki hefur náðst samkomulag um að söluna hafa leyfin hækkað um að minnsta kosti 25% og sjá það allir að það gengur ekki upp. Vonandi sjá menn að sér og taka þátt í að halda verðinu í skefjum.

Í söluskrá Svfr. fyrir árið 2009 er margt mjög skemmtilegt og spennandi og skora ég á félagsmenn Víðförla og aðra sem lesa þennan pistil á að kíkja í skrána og láta vita ef það er eitthvað sem þið viljið spá betur í. Það er strax kominn áhugi fyrir Steinsmýrarvötnum í vor Fákrúð í sumar. Bæði þessi svæði eru mjög eftirsótt þannig að það getur verið að það verði erfitt að komast að nema á A leyfum. Við sjáum til.

Kveðjur Hattarinn.

 

                                                       

 


Veiðileyfi 2009

Sælir félagar.

Eins og fram hefur komið áður hjá okkur var árið 2008 alveg sérstakt hjá okku Víðförlafélugum og er þá af mörgum árum að taka. Nú eru að koma jól og ekki er enn farið að staðfesta eitt einasta veiðileyfi fyrir árið 2009. Það virðist sem árið 2009 verði sérstakt að því leiti að sala á veiðileyfum hefst sennilega ekki að neinu marki fyrr en með vormánuðum. Ég ætla að láta ykkur vita að ég panta Laxá í Leir um leið og ég fæ eitthvað að vita frá þeim með verð og annað en ég er viss um að það sem stöðvar veiðileyfasölu eru verðlagsmálin. Vonandi sjá menn sér fært á á lækka leyfin því annas koma þau til með að seljast illa en það er seinni tíma mál.

Að lokum vil ég óska ykkur öllum kæru félagar og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og fengsældar á nýju ári í víðum skilningi.

Kveðja Hattarinn.


Veiði í nóvember.

Sælir félagar. 

Þeir lentu flott í því Stangarbaninn og 10 pundarinn, fóru að veiða í Ytri-Rangá nú í byrjun nóvember sem er náttúrulega algjör klikkun eða hvað. Þeir mokveiddu (101 stk) fyrir mjög góðan málstað sem er frá náttúrulega frábært en við skulum aðeins skoða málið.                                                       Þarna eru menn að veiða í nóvember flottan fisk og að veiðimanna sögn nýgenginn og jafnvel lúsugan á þessum tíma.                                                                                                                Hvað er að gerast? 

Einhvernveginn finnst manni að hlutirnir vera að breytast. Það var einu sinni best að veiða í júlí en nú er það spurningin með ágúst og september. Bíðið við, menn eru að mokveiða í nóvember.  Veiðitíminn er að breytast, það er bara þannig. Undanfarin sumar hafa verið þannig með síðasta sumar sem undantekningu þó að árnar fóru niður í grjót með vatnsmagn og þ.a.l. litla eða enga veiði.  Fiskurinn gengur í árnar þegar nóg vatn er í ánum  það vitum við og á undanförnumum árum er ekki nóg vatn í ánum fyrr en á haustin. Því miður fyrir okkur veiðimenn sem viljum vera að veiða í góðu veiðiveðri á miðju sumri, sú tíð er liðin með svo mörgu öðru góðu. Svona er þetta bara. Víðförlafélagar verða kannski bara næst á ferðinni á Þorláksmessu til þess að ná í graflax fyrir kvöldið.

Að lokum vil ég minna ykkur á  síðasta bréf sem ég sendi ykkur með Flekkuna 2009.

Skoðið  málið.

Hattarinn. 

 

 


Fundargerð aðalfundar Víðförla 2008

Sælir félagar.

Hér kemur langþráð fundargerð eftir síðasta aðalfund Víðförla.

Fundargerð 11 aðalfundar Veiðifélagsins Víðförla haldin föstudaginn 31 október ´08

Formaður setti fundinn kl. 19:15 og bauð gesti velkomna á fundinn og voru þeir eftirtaldir. Hilmar, Marteinn, Jónas, Tóti, Guðmar, Steini, Þorvarður, Orri, Kristján,Axel, Leifur og Hrafn sem var að sækja um aðild að Víðförla.Þá kom það fram við setningu fundarins að Veiðifélagið Víðförli er tíu ára um þessar mundir var stofnað 4 nóvember 1998.Dagskrá fundarins var hefðbundin og tilnefndi formaður Leif sem fundarritara og var það samþykkt samhljóða.Fyrir fundinum lá ein aðildarumsókn og var hún tekin fyrir og rædd nokkuð meðan umsækjandi vék af fundi. Eftir fyrirspurnir til hans var hann samþykktur sem fullgildur félagi í Víðförla og fékk hann nafnið Ormurinn. Var það skírskotun til umsóknar hans þar sem hann sagðist geta frætt okkur hina um lifnaðarhætti maðka og maðkarækt.Næst á dagskrá var skýrsla formanns og var hún hefðbundin og fylgir hún með sem viðhengi með póstinum. Alls voru farnar sjö Víðförla ferðir á þessu sumri og er það með allra mesta móti og voru aflabrögð eftir því. Algjör sprengja, alls voru skráðir 137 laxar 23 urriðar og 1 bleikju í sumar sem er glæsilegt met hjá okkur í Víðförla.Þá tilkynnti formaður formlega og lagði fram tölvupóst því til staðfestingar að Víðförli héldi sínu holli framvegis í Laxá í Leirársveit. Var mikil og almenn ánægja fundarmanna með þá niðurstöðu. Á móti kom að ekki tókst að manna holl í Flekkuna í fyrsta skipti í tíu ár og urðum við að skila þeim leyfum aftur því miður.Þá kom einnig fram í ræðu formanns að fjárhagsstaða sjóðsins er nokkuð góð gatVíðförli því boðið upp á allar veitingar á þessum fundi.Að síðustu tjáði formaður fundarmönnum að þetta yrði hans allra síðasta ár sem formaður Víðförla.Næsti liður var umræða um skýrslu stjórnar og reikninga og spunnust umræður um þessa liði og m.a. hvort ekki væri rétt að breyta lögum félagsins þannig að ekki væri skylda að eyða sjóðnum árlega heldur að reyna að safna á milli ára. Eftir talsverðar umræður og útskýringar formanns af hverju þetta væri svona urðu menn sammála um að halda þessu óbreyttu. Þá komu fram tillögur um hækkun aðildargjalda Víðförla meðfram þeim hugmyndum um breytingu á lögum félagsins en þær voru síðan dregnar til baka og tillaga formanns um óbreytt árgjald fyrir árið 2009 samþykkt samhljóða.Að lokum var skýrsla formanns samþykkt samhljóða.Þá var komið að verðlauna þætti Víðförla og fóru leika svo að stærsta fisk sumarsins sem vitað er af fékk Ási 8kg. lax í Laxá í Aðaldal, Guðmar stærsta Víðförlafiskinn úr Ytri-Rangá   4.5kg. og Marteinn flesta veidda fiska í Víðförla ferðum 44stk.Undir liðnum veiðin 2009 urðu talverðar umræður og eins og kom fram áður erum við að fara í Laxá í Leir og væntalega fáum við boð um Flekkuna. Einnig var ákveðið að fara aftur í Steinsmýrarvötn í vor. Þá tilkynnti Marteinn að hann væri búinn að panta 6 stangir í Ytri-Rangá í byrjun september og ef menn hefðu áhuga þá gætu menn fengið stöng hjá honum. Því miður að öðru leiti er árið 2009 nokkuð óráðið m.a. vegna ástandsins í þjóðfélaginu og var ákveðið að doka við og skyldu menn skoða málin í rólegheitum fram eftir hausti.Að þessum umræðum loknum var fundi slitið og eftir borðhald var myndasýning frá Grænlandi í boði Axels.Leifur Eiríksson

Fundarritari.

Með Kveðju Hattarinn.  

 


Aðalfundur Víðförla.

Sælir félagar.          

Jæja strákar þá er búið að negla niður endanlegan fundarstað og fundartíma. Félagsmenn munu fá sendar nánari upplýsingar í tölvupósti sem þegar hefur verið sendur. Annars er dagskráin hefðbundin og samkvæmt lögum félagsins fyrir utan að eftir fund verður óvænt og skemmtileg uppákoma svona smá leyndó.

Félagsmenn eru vinsamlegast beðnir að tilkynna þátttöku fyrir kl. 13:00 fimmtudaginn 30 október.

Með kveðju Hattarinn.                                                                                                                          


Aðalfundur Víðförla

Sælir félagar.

Þá er búið að boða til árlegs aðalfundar Víðförla er ákveðið að hann verði haldinn föstudaginn 31 okt. n.k. en staður og stund hafa ekki enn verið ákveðin. Dagskrá fundarins er hefðbundin og samkvæmt lögum félagsins mun hún einnig verða send út síðar. En á þessum fundi mun verða óvænt og mjög skemmtileg uppákoma sem enginn sannur veiðimaður ætti að missa af. Vil ég því hvetja Víðförlafélaga til þess að mæta á fundinn og njóta þess sem fram verður boðið.

Þá er að nefna að ég hef þá þegar lagt inn orð fyrir okkur með Laxá í Leir og vonandi fáum við daga á svipuðum tíma á næsta ári. Þá vil ég hvetja menn til þess að koma með hugmyndir hvert skal halda á næsta ári þrátt fyrir hremmingar nú um stundir.

Kveðja Hattarinn.


Laxá í Leirársveit.

Sælir félagar.

Þá er það enn eitt ævitýrið á þessu mikla veiðisumri. Nú yrði tekið á því. Alls fóru 11 Víðförlafélagar í þennan veiðitúr og hafa aldrei áður í 10 ára sögu Víðförla jafnmargir verið saman áður í veiðiferð. Það reyndar fækkaði um einn í hópnum en sama þeir ellefu sem eftir voru mættu á staðinn um hádegi s.l. laugardag. Fyrstir á vettfang voru Flotarinn og Laxmaðurinn og fluttu þeir okkur hinum váleg tíðindi. Áin í foráttu vexti, svo miklum að Flotarinn sem hafði veitt í ánni undanfarin 14 ár hafði aldrei séð hana í þessum ham áður. Við komu hinna og nánari skoðun kom í ljós að margir góðir veiðstaðir voru horfnir eins og t.d. Laxfossinn, Ljónið, Sunnefjufossinn, Urðarstrengir og svo mætti áfram telja. En út fórum við til veiða, vaskir menn í miklu roki og talsverðri rigningu og skyldi leitað að laxinum því við vissum að hann var einhverstaðar í ánni. Áin var ekki alveg kollituð en það var svona slykja í vatninu þannig að illa sást til botns. Eftir fyrstu vaktina lágu 6 laxar í valnum og enginn þeirra kom á svona hefðbundum veiðistöðum heldur á milli þeirra og helst þar sem fiskurinn leitaði skjóls í rólegra vatni.                                                                                                            Ekki skánaði ástandið daginn eftir eins og við vonuðum. Það hafði snjóað í fjöll þannig að það var fyrirsjáanlegt að ekki mundi lækka mikið í ánni. En áfram var haldið þrátt fyrir grenjandi rigningaskúra og haglél en til þess að gera þessa löngu sögu stutta þá enduðum við í 26 löxum og 3 fiskum af tegund sem má ekki nefna í laxveiði.                                                                      Þrátt fyrir mikla bleytu og vosbúð við veiðarnar þá þarf ekkert að ræða aðbúnaðinn í veiðihúsinu sem er til mikillar fyrimyndar bæði hvað varðar aðstöðu og viðgjörning. Alveg meiriháttar.                    Þessi vatnsgangur sem búinn er að vera að undanförnu setti heldur betur strik í reikninginn hjá okkur sumum sem ætluðu að moka upp fiski fyrst í Eystri-Rangá og síðan í Laxá Leir. gerðu þær áætlanir að engu. Þá er það bara plan "B" en það er að endurtaka bara leikinn að ári og vona það besta. Það koma myndir úr báðum þessum ferðum mjög fljótlega í albúmið á þessari síðu.

Með veiðikveðju,

Hattarinn.

                      

 

 


Eystri-Rangá og Ike.

Sælir félagar.

Jæja þá er það veiðiferðin í þá Eystri sem varð svolítið skrautleg svo ekki sé meira sagt. Við mættum í hús nokkrir gallvaskir Víðförlafélagar þ.e.  Hattarinn, Laxarinn, Laxafangarinn, Hængurinn, 10pundarinn og Hrygnan að kvöldi 15 sept. og átti að veiða 16 og 17 sept.  Nú skyldi tekið á því. Við byrjuðum snemma morguninn eftir og gekk allt eins og í sögu framan af degi þó nokkuð væri hvasst. Eftir fyrstu vaktina lágu 14 stk. í valnum. Nokkuð gott hjá okkur. Þegar við hófum aftur veiðar um kl. 15:00 var Ike (leyfar af fellibyl) karlinn mættur á svæðið. Þvílíkt og annað eins rok rigningu höfðu menn varla lent í við veiðar áður. Það var gjörsamlega kolbrjálað og ekki stætt við ána sem óx hratt og varð skyndilega eins og kakómjólk á litinn ég veit ekki bragðið þorði ekki að smakka. Við þraukuðum þó til að verða 6 en þá gáfumst við upp og fórum niður í veiðhús.

Fljótlega þegar eftir að þangað var komið veiktist undirritaður með all svakalegan magaverk sem leiddi út í bak. Þar sem 10pundarinn hafði ákveðið að fara heim um kvöldið varð ég honum samferða og var bara drullulasinn og endaði uppá bráðamóttöku og eftir miklar rannsóknir kom í ljós talsverðar magabólgur eftir camfýlóbakter sýkingu sem ég hafði verið með að undanförnu. Nóg um það.

Það hélt áfram að rigna langt fram á nótt og fór enginn út fyrr en kl. 11:00 morguninn eftir. Þá komu hamfarirnar í ljós. Það var ekki einu sinni hægt að aka að ánni á allmörgum veiðistöðum þar sem áin hafði flætt svo rækilega yfir bakka sína og þ.a.l. yfir vegina að ánni. Það var svo sem reynt en það gekk ekkert þannig að menn fóru að huga að heimferð fljótlega eftir hádegið. Svona fór um sjóferð þá. En þetta var samt alveg þrælskemmtileg ferð þrátt fyrir allt og vonandi gengur betur næst.

Kveðja Hattarinn.

Ps. Þá er það Laxá í Leir. mæting í veiðihús 20 sept. kl. 14:15.

 

hafði flætt svo rækilega yfir bakka sína


Veiðistaðalýsing og Eysri-rangá.

Sælir félagar.

Það var ágætlega mætt í gærkvöldi og fengu menn sér nokkra bjóra og kneyfuðu öl að bestu gerð með. Það virtist vera almenn ánægja með kvöldið og þá var tilganginum náð það er að hafa gaman að þessu öllu.

Nú í kvöld fara nokkrir Víðförlafélagar í Eystri- Rangá og er mikill spenningur í gangi fyrir þessa ferð. Það er helst að veðrið geti gert okkur skráveifu en vonandi verður þetta í lagi. Nóg er af fiskinum í ánni þannig að horfurnar eru bara góðar.

Svo um næstu helgi er það Laxá í Leir. Gaman gaman.
kveðja Hattarinn.


Frestun.

Veiðistaðalýsingin fyrir Laxá er frestað fram á sunnudag kl. 18:00 á sama stað.                                                                                                                                                          Kveðja Hattarinn.                               

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband