Færsluflokkur: Bloggar
22.1.2010 | 22:54
Veiði 2010.
Sælir félagar.
Við erum eins og ég sagði í síðasta pisli búnir að tryggja okkur 5 ágúst í Hólsá vesturbakkann með allar stangirnar og verður það bara spennandi og svona létt eins dags ferð. Þá erum við einnig búnir að tryggja okkur allar stangirnar Vatnamótunum í vor þ.e. 7-9 apríl. Einnig erum við komir með eina stöng í Iðuna 22 sept. Þá er hollið 12-14 september í Laxá í Leir klárt þannig að við erum með allar stangirnar þar á sama verði og í fyrra og með léttgreiðslum þett árið. Svo er ein skemmtileg á sem bíður á kantinum það er Hallá á Skagaströnd. Það er mjög ódýr 2 stanga á með bæði maðk og fluguveiði, frábæru veiðihúsi og náttúrulega ágætis veiði. Þar er möguleiki á 2 dögum í kringum 23 ágúst og ætlar Axel að gæta hagsmuna okkar þar. Látið mig vita ef þið viljið slást í hópinn. Það fór frekar illa hjá okkur mörgun með úthlutun hjá Svfr. þar fóru mörg A leyfin fyrir lítið því miður. Við því er ekkert að gera þar sem áhugi virtist ekki vera fyrir hendi.
Kveðja Hattarinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.1.2010 | 15:39
2010
Sælir félagar og gleðilegt ár.
Þar sem umsóknarfresturinn hjá Svfr. rennur út á morgun vil ég bara enn og aftur ítreka að ef þið hafið áhuga á að fara í veiði á þeirra svæðum og viljið vera nokkuð vissir um að komast þá er sjensinn enn til staðar. En við megum engan tíma missa ef þið ætlið að nýta ykkur A leyfin. Ég hef þá þegar verið í sambandi við nokkra leyfissala og þar á meðal í Laxá í Leir og getum við sennilega fengið allar stangirnar þar 12-14 september eða á sama tíma og í fyrra. Þá er frá því að segja að ég fæ sérstakt tilboð í á sem við höfum farið í á undanförnum árum og veitt vel en fórum ekki í fyrra vegna þess hversu dýrt það var orðið. Þar er komið nýtt veiðihús því það sem fyrir var bæði orðið alveg svakalega erfitt og ekki verandi í þeim "kofa". Ég fæ tilboð í tvö tímabil í allar 6 stangirnar sem eru á svæðinu það fyrra í kringum 10 júlí og það síðara 10 ágúst. Ég læt ykkur vita um leið og tilboðin koma. Þá er ég búinn að hafa samband við leyfissalan á Nesinu og boðaði hann breytingar en þó ekki neina byltingu. Það er sama sagan þar, hann lætur mig vita strax og hann hefur eitthvað fast í hendi.
Við erum búnir að bóka 1 dag í Hólsá vesturbakka 5 ágúst og er ein stöng þar laus og er verðið 17.500 á dag með húsi. Látið mig vita ef þið hafið áhuga. Vatnamótin eru klár 7-9 apríl og þar er laust fyrir 2. Þá er og laust fyrir 2-3 í Laxá í Leir.
Kveðja Hattarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2009 | 14:11
Jólin
Sælir félagar. Nú þegar jólin eru á næsta leiti dettur ekki verðskráin frá bæði Strengjum og Svfr. innum bréfalúguna með öllum jólakortunum. Ég fór strax að skoða gripin og sýndist mér verðið standa nokkur veginn í stað í báðum listunum og er það vel. Þeir sem hafa fengið verskrá Svfr. hana senda skoða hana væntalega vel yfir jólin og mynda sér skoðun hvert og hvar ber helst til fanga sumarið 2010. Mér sýnast margir góðir kostir í boði. Um leið og ég minni þá sem ætla að mæta í skötuna til Varða á morgun kl. 13:30 að mæta stundvíslega eins og venjulega. Þá vil ég að lokum senda ykkur öllum mínar bestu kveðjur með ósk um gleðileg jól, far og fengsælt komandi ár með miklu þækklæti fyrir allar ánægjustundirnar á árinu sem senn kveður.
Kveðja Hattarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 11:56
Þorláksmessuskatan,
Sælir félagar.
Við mætum sem vilja í Þorláksmessu skötu í eldhúsið hjá Laxmanninum kl. 13:30 Þeir sem ætla að mæta þurfa helst að láta mig vita fyrir mánudag. Þeir sem hafa boðað komu sína nú þegar eru Hattarinn, 10pundarinn, Stangarbaninn, Laxarinn, Hrygnan og Urriðabaninn. Það er enn nóg pláss fyrir fleirri og verðið er aðeins 870.-
Kveðja Hattarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2009 | 22:42
Villibráðarveisla
Kæru Víðförlafélagar.
Það hefur verið ákveðið að við förum saman í hádeginu á Þorláksmessu og borðum saman "kæsta skötu" sem er einhver alvilltasta villibráð sem um getur. Laxmaður hefur boðið okkur til sín á mat gegn vægu gjaldi og hefur nefndin þegið það og þar spörum við stórfé í kreppunni. Mismuninum getum við eitt í bjór, veiðileyfi, póker eða einhverjar aðrar nauðsynjar. Þeir sem hafa áhuga á að koma með látið mig vita sem allra fyrst.
Kveðja Hattarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2009 | 12:49
Opið hús hjá Svfr.
Sælir félagar. Marteinn, Ási og ég mættum á opna húsið hjá Svfr. á síðasta föstudag svona til þess að sýna okkur og sjá aðra veiðimenn í vetrarham. Dagskrá kvöldsins var mjög hefðbundin á þessu fyrsta opna húsi vetrarins, Séra Pálmi Mattíasson sagði nokkur orð í svona kristnum anda, síðan kom formaður félagsins og sagði okkur frá horfunum framundan, þá komu 2 bókakynningar og voru það höfundar þeirra sem gerðu þeim skil. Annarsvegar Áin eftir Bubba og fjallar hún um Nessvæðið í Laxá í Aðaldal og hin bókin fjallar um hnýtingar á silungaflugum. Að lokum kom Ólafur Sogskóngur og var hann með mergjaðar veiðilýsingar á Soginu eins og honum er einum lagið, algjör snillingur þekkir þetta stórfljót eins og handarbakið á sér. Virkilega skemmtilegt það svo að mig langaði bara að fara að veiða og það strax!!!! Síðan kom happahylurinn en þá vorum við farnir því við erum svo óheppnir. Það kom fram hjá formanni að síðasta ár var eitthvert lakasta ár hjá Svfr. frá upphafi og nam tapið um 48 miljónum og munaði þar mest um Laxá í Þing, Straumana og Laxá í Hreppum. Sem betur fer tókst þeim í stjórninni að koma í veg fyrir enn verri skell og nú í sumar og haust hafa þeir verið að vinna að því hörðum höndum að semja uppá nýtt við veiðiréttareigendur. Eitthvað dettur út frá því í fyrra og Laxá í Dölum er það eina nýja á næsta ári. Flestallar ár koma til með að lækka í verði og sumar allverulega og var svo sem tími til kominn. Söluskránni seinkar eitthvað og það verður spennandi að sjá hana þegar hún kemur út.
Kveðja Hattarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2009 | 14:44
Veiðihjól, hugleiðing.
Sælir strákar. Mig langar svolítið til þess að segja ykkur smá sögu um veiðihjól og geymslu á þeim yfir vetrartímann. Eins og þið vitið kannski þá er ég búinn að vera í hálfgerðu basli með bæði kasthjólin mín og einnig fluguhjólin mín nú í 2-3 undanfarin ár. Það byrjaði eiginlega allt á því að eitt vorið þegar ég ætlaði að fara að nota Mitchell kasthjólið mitt þá var það allt í einhverju bölvuðu tjóni. Þegar ég spennti upp bogann til þess að kasta þá gekk hann ekki til baka nema slá honum til baka með puttanum. Svo þegar ég ætlaði að draga inn þá var allt eiginlega hálffast og þurfti ég að hjálpa hjólin af stað með því að snúa spólunni með höndunum. Þegar ég kom heim þá fór ég að skoða hjólið og þar sem kunnátta mín í veiðihjólaviðgerðum er ekki mikil þá tók ég hjólið og hreinsaði það allt upp og smurði það með nýrri þurrolíu. Jú það lagaðist en ekki nóg. Hvað um það þeir hjá Títan auglýsa útsölu á veiðivörum svona rétt fyrir aðal vertíðina maður, ég þangað og fór að skoða hjá þeim veiðihjól og voru þau á fínu verði. Nema kvað ég kaupi eitt forláta 3legu kasthjól með aukaspólu og í flottum poka og það bara á fínu verði að mér fannst. Þannig að ég lagði bara Mitchell hjólinu mínu og ætlaði ég að nota það svona til vara. Gekk mjög vel með nýja hjólið það sumar. Næsta vor þ.e. í fyrra sumar þegar ég fer í minn fyrsta veiðitúr er nýja hjólið alveg kapút. Það var nákvæmlega eins og Mitchelinn allt fast þegar ég ætlaði að fara að draga inn gekk það mjög skrikkjótt eins og einhver öxull í því væri boginn. Ég þraukaði með hjólið það sumar og nú í sumar líka og var það bara enn verra ef eitthvað var en samt var ég búinn að hreinsa það og smyrja.
Víkur þá sögunni að Langá nú í sumar. Ég er að labba í rennblautu grasi frá veiðstað sem heitir Hornhylur og ég renn til og fell við en ber hendina fyrir mig þannig að fluguhjólið mitt verður á milli þannig að allur minn þungi lendir á hjólinu. Nema hvað hjólið laskast við fallið. Nú voru sko góð ráð dýr. Þetta hjól var eðalgripur og að endingu fór ég með það í viðgerð í Veiðihornið og gekk það mjög vel og hjólið sko komið í gott lag. Ég fer að ræða við þá um kasthjólin mín og tiktúrurnar í þeim báðum. Skýringarnar á þessum bilunum komu strax. ÞAÐ Á ALDREI AÐ GEYMA LEGUHJÓL Í LANGAN TÍMA MEÐ BREMSUNA Á. ÞAÐ SKEKKIR LEGURNAR. Þar kom þá skýringin eftir allt saman og það passar alveg í mínu tilfelli því ég var með þau bæði í talsverðri bermsu í geymslunni yfir veturinn. Nú eru bæði hjólin komin í viðgerð og þetta kemur ekki fyrir aftur. Vildi bara láta ykku vita til þess að þið lendið ekki í því sama.
Kveðja Hattarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.11.2009 | 12:54
Fundargerð aðalfundar Víðförla 2009.
Formaður setti fundinn kl. 16:30 og mættu alls 13 Víðförlafélagar sem formaður bauð velkomna en þeir voru, Þórir, Axel, Steini, Orri, Marteinn, Hilmar, Krummi, Jónas, Eyjó, Oddur, Varði, Ási og Eggert, sem hafi lagt inn formlega umsókn um aðild að Víðförla. Eftir setningu og kosningu ritara, sem Steini var kosinn í, var gengið til hefðbundinnar dagskrár og var fyrst tekin fyrir umsókn Eggerts Karvelssonar og var hann samþykktur sem 18 félagi í Víðförla og hlaut hann viðurnefnið Spúnninn.
Í skýrslu formanns sem var næst á dagskrá kom fram að sumarið í sumar var ekki undantekning frá tveimur síðustu með miklum þurrkum fram í ágúst en samt skaplegri veiði og nutum við þess í hvívetna. Það kom einnig fram að veiðin í sumar hafði farið langt framúr björtustu vonum okkar félaga. Viðurkenndar veiðiferðir Víðförla á þessu sumri urðu alls átta og kom það einnig fram að sjaldan eða aldrei hefur afli félagsmanna í Víðförla ferðum dreifst eins vel á milli félaga en alls fengu 15 félagsmenn fiska í ferðum þess. Alls veiddust í Víðförla ferðum 339 fiskar og þá bæði urriðar og laxar. Þar af veiddu félagsmenn í Víðförla alls 266 fiska 148 urriða og sjóbirtinga og 118 laxa. Það er um það bil helmingi meiri afli en árið ´08. Þess var einnig getið að þessi mikli afli skýrist fyrst og fremst af mjög góðum afla í Steinsmýrarvötnum í apríl og þá ekki síður stóraflanum í Staðará í júlí. Að vanda þá fóru Víðförlafélagar á nýjar slóðir og má á því sambandi nefna ferðina í Fáskrúð í ágúst og einnig endurnýjuðum við kynni okkar við Langá. Þá fóru félags- menn í Þórisvatn og Kvíslarveitur og vafalaust víðar. Þá má einnig nefna túrinn nú í október nánar tiltekið þ. 21. í Ytri-Rangá sem var um margt athygliverður. Það var samdóma álit þeirra sem félagsmanna Víðförla sem formaður hafði rætt við að almenn ánægja var með veiðisumarið 2009. Formaður ræddi einnig um framtíðina og sagði í skýrslu sinni að ýmislegt benti til þess að veiðileyfi myndu lækka talsvert í verði og það jafnvel strax á næsta ári. Hann hefði bæði fengið sent og haft samband við leyfissala og töldu þeir einnig að verð myndu lækka og er það vel. Með það í huga er spurning um hvað gera skal í sambandi við pantanir á leyfum fyrir sumarið 2010 en búið er að panta í Ytri-Rangá og munum við taka sem það við getum í Staðará. Annað verður skoðað þegar þar að kemur. Þá kom það fram hjá formanni að samþykkt hafði verið árið ´07 að hækka félagsgjöldin í 3000.- en það var ekki gert en kemur sú hækkun þá til framkvæmda á næsta ári. Fjármál Víðförla eru í góðu lagi að öðru Að lokum sagði formaður eitthvað um stjórnarskipti sem félagsmenn heyrðu afskaplega illa. Talsverðar umræður urðu um skýrsluna var hún síðan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Hefðbundin verðlauna afhending var næst á dagskrá og hlutu eftirtaldir verðlaun. Axel fyrir stærsta fisk sumarsins 9,5 kg lax veiddan í Hafralónsá. Jónas fyrir stærsta fiskinn í Víðförla ferðum 7,1kg veiddan í Hvítá við Iðu. Eggert fyrir flesta veidda fiska í Víðförla ferðum alls 26 stk.
Þá hélt Hilmar smá fyrirlestur um þyngdarmælingu á laxi (K stuðulinn) og var það skemmtilegt innlegg í fundinn. Þá voru þeir Hilmar og Axel með myndasýningu sem var bæði fróðleg og skemmtileg.
Undir liðnum önnur mál var ýmislegt rætt sem ekki þarf að færa til bókar í fundargerð.
Fundi slitið kl. 20:15
Þorsteinn Stefánsson fundarritari.
Bloggar | Breytt 5.11.2009 kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2009 | 00:58
Aðalfundur Víðförla
Takið með ykkur sundskýlur og handklæði og verið í forvörn.
Kv. Hattarinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2009 | 09:17
Aðalfundur Víðförla
Sælir félagar.
Aðalfundur Veiðifélagsins Víðförla verður haldinn laugardaginn 31 október nk. og verður formlegt fundarboð sent öllum félagsmönnum í rafrænum pósti. Á fundinum sem er mjög hefðbundinn og samkvæmt lögum Víðförla en þar verður farið yfir veiðisumarið 2009 og svo spáð í veiðisumarið 2010. Að venju verða skemmtilegar umræður um þessi mál og önnur sem væntanlega verða borin upp á fundinum af félagsmönnum til umræðu. Það er svolítið einkennilegt svo ekki sé meira sagt að það skuli einn félagsmaður ekki geta mætt á aðalfundinn af því að hann er í laxveiðitúr!!!!!!!!! Þetta sýnir bara hvað veiðitímabilið hefur færst aftar á árið og er bara klikkun.
Að lokum vil ég taka fram að Víðförli sér um allar veitingar á fundinum og félagar eru beðnir um að mæta stundvíslega.
Kv. formaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)