Færsluflokkur: Bloggar

Weiðisaga að westan

Eins og kom fram á símahluta Aðalfundar Víðförla þá fór veiðiferðin mín í Salmon River hérna í New York frekar illa þegar veiðifélaginn rifbrotnaði ÁÐUR en veiði hófst. En við Víðförlar grípum hvert tæki-færi til veiða og hér kemur saga af stuttum en bara nokkuð góðum veiðitúr undirritaðs. 

Þannig er mál með vexti að fyrir tveimur vikum þegar ég var í áðurnefndum veiðitúr þá fékk ég hringingu frá konunni í miklu uppnámi þar sem hún hafði séð óargadýr (mús) skjótast undan eldhúsinnréttingunni og inn í þvottahús. Þegar ég kom heim sólarhring síðar var gerð dauðaleit í þvottahúsinu en ekkert fanns og síðan voru keyptir tveir brúsar af gluggaþéttingarfroðu og fyllt í öll göt og rifur og héldum við að málinu væri lokið. 

En í kvöld dró til tíðinda er við hjónin sátum í stofunni og spiluðum Scrabble. Sé ég þá ekki utundan mér áðurnefnt óargadýr (músina) skjótast úr þvottahúsinu og undir ískápinn. Og hófst þá veiðin .... ég hvíslaði ofurvarlega að veiðifélaganum “ég sá hana” og ólíkt því sem vanalegt er á veiðum þá var fögnuður veiði-félagans lítill sem enginn.  

Ég lét það ekki á mig fá og hóf þegar að kanna veiðisvæðið. Dró fram ísskápinn og eldavélina og sá ummerki ekki ósvipað því þegar lax byltir sér – tvö þrjú spörð. Vissi ég að spennandi tími væri fram-undan og gerði því veiðigræjurnar klárar. Í þetta skipti ákvað ég að nota buffhamar í upprekstur, grilltöng af Weber gerð í uppstillingu og frágang og sérpantaðar “Instatrap” límgildrur í föngunina. Til könnunar var vasaljós frá Ólíver af dótagerð. 

Fyrsta “rennslið” var að lýsa með vasaljósinu bak við skápinn milli eldavélar og ísskáps ekki ósvipað því þegar hylur er skyggndur og var þetta líkt og Myrkhylur í Norðurá ... langt og þröngt veiðisvæði. Ekki leið á löngu þar til ég var fullviss um að ég væri á rétta staðnum því ég sá hreyfingu ... hún bylti sér kvikyndið. 

Það var ekki eftir neinu að bíða - meðan veiðifélaginn stóð vörð (las vatnið) setti ég gildrurnar upp – eina hvoru megin við skápinn – svona efst og neðst í hylnum. Kom Weberinn nú að góðum notum við stað-setningu og frágang límgildranna. Þegar allt var til reiðu skyggndi ég hylinn meðan veiðifélaginn gekk berkserksgang á framhlið sökkulsins ... og það var ekki að spyrja að því. Ég sá hana – augu okkar mættust í ljósinu en tók ekki strax. Lá eins og dauð væri og haggaðist ekki – en ég dó ekki ráðalaus heldur blikkaði vasaljósinu ótt og títt (strippaði) og eftir augnablik tók hann ... hljóp undan blikkandi ljósinu og beint í aðra gildruna og hræðslutístið í óargardýrinu (músinni) drukknaði í gleðihrópi veiðimannsins “ég er meðann” 

Við tók nú hefðbundinn frágangur afla og veiðafæra og það skal tekið fram að aflanum var sleppt ... en reyndar steindauðum í ruslafötuna ÚTI

kv - marteinn   Devil


Aðalfundur.

Sælir félagar.

Aðalfundur Víðförla verður haldinn laugardaginn 30 október í Fjósinu hjá Krumma í Njarðvík og hefst stundvíslega kl. 19:00. Dagskrá fundarins er hefðbundin og samkvæmt lögum Víðförla og hefur verið send félagsmönnum  til skoðunar. Sætaferðir verða frá Reykjavík og mun Flotarinn sjá um aksturinn og mun þá gamall draumur hans um að verða "rútubílstjóri" loksins rætast. Þá hefur verið send út leiðbeiningar um akstursleið Flotarans og menn beðnir um að vera tilbúnir þegar hann birtist. Hressing verður í boði í rútunni á leið suðureftir gegn vægu gjaldi. Það er þó eingöngu til þess að menn gæti hófs og trufli ekki Flotarann við aksturinn því hann tekur þessu tækifæri sínu mjög alvarlega. Sjáumst kátir og hressir.

Kveðja Hattarinn.


Aðalfundur Víðförla.

Sælir félagar.

Ákveðið hefur verið að aðalfundur Veiðifélagssins Víðförla verði haldinn í Fjósinu hjá Krumma laugardaginn 30 október 2010.                                                                                                  Vinsamlegast takið daginn frá og tilkynnið þátttöku sem allra fyrst.                                               Nánari dagskrá verður send út síðar en verður að vanda samkvæmt lögum Víðförla.

Kveðja JM.

 


Ferðin í Vatnamótin.

Sælir félagar.

Það voru galvaskir Víðförlafélagar sem lögðu í síðustu veiðiferð ársins 2010 föstudaginn 8 okt. Veðrið var alveg frábært og spáin góð þannig að allir voru í skínandi skapi. Eftir verslunarferðina í Bónus var gefið í og var lent á Hörgslandi rétt liðlega eitt. Þeir sem voru á undan okkur voru ekki farnir þannig að okkur tókst að fá hjá þeim upplýsingar um aflabrögð. Þeir urðu reyndar tvísaga um þau en gáfu upp um 20 stk. en því miður þeir voru allir frekar smáir að þeirra sögn. Jæja það er þó altént fiskur. Eftir smá upplýsingarfund hjá Ragnari vert lögðum við á staði til veiða en það er skemmst frá því að segja að við fundum lítið af fiski og fengum þennan fyrsta dag aðeins 2 smá bleikjur. Reyndar hafði Axel vaðið svolítið ofar í ánni og setti í tvo en missti þá báða. Við vorum svo sem ekkert að æsa okkur yfir þessu því við myndum takan á morgun. Því miður það var sama ördeyðan allan daginn þrátt fyrir mikla ástundun, svo mikla stundum að okkur fannst nóg um og drógum í land. Það komu þó 2 smá birtingar og menn urðu varir við fisk en því miður ekki þessa stóru sem við slepptum í vor, þeir sáust hvergi. Hvað um það veðrið var frábært félagarnir meiriháttar og nógur matur og ekki skorti ölið þannig að það var ekki yfir neinu að kvarta. Varði kom með aldeilis stóra og þykka hammara sem voru grillaðir með tilbehör og einnig þvílíka mexicanska kjúllasúpu að menn svitnuðu vel í framan ef menn voru með einhverja græðgi við borðhaldið. Bæði kvöldin ríkti mikil glaðværð og kátína í hópnum og var sko mikið hlegið og skemmtu menn sér konunglega. þá fóru nokkrar hetjur bæjarleið til að ylja sér í heitum potti sem var á svæðinu en það gerðu bara heljarmennin. Hinir sátu heima. Ég veit ekki hvað skal segja um þetta svæði en það var miklu meira vatn núna á svæðinu heldur en í vor. Þá er spurning hvort megnið af fiskinum sé ekki genginn upp í sínar hrygningarár þar sem komið er fram í október, við erum kannski full seint á ferðinni. Mér finnst full ástæða til þess að gefa vorveiðinni annan séns og taka sama tíma á næsta ári en um haustið myndi ég vilja fara talsvert fyrr. Við ræðum það á aðalfundi víðförla seinna í þessum mánuði. Ég læt nokkrar myndir fljóta með.

Kveðja hattarinn.


Farið í Vatnamótin

Sælir félagar.

Þá er það sennilega síðasta veiðiferðin hjá okkur flestum nú um helgina. Farið verður í Vatnamótin í V-Skaftafellssýslu þ.e. þar sem Breiðabalakvísl og Fossálarnir koma út í Skaftá. Þetta svæði er rómað sjóbirtingsvæði eins og við fengum að kynnast síðastliðið vor. Nú verður sá fiskur sem við slepptum þá kominn með væna ístru og verður svona feitur og pattaralegur og vonandi nóg af honum. þeir sem fara í þessa ferð eru Hilmar, Axel, Skafti, Jónas, Varði, Krummi, Guðmar, Tóti og 2 vinir Tóta. Þetta er bara einvalalið sem mun höggva stór skörð í sjóbirtingstorfurnar á svæðinu. Ef ég væri gæs og væri á þessu svæði núna þá mundi ég sko skoða hug minn vel og færa mig eitthvað um set. Hvert  skiptir ekki máli en ekki vera á þessu svæði  þessa daga. Sumir þessara manna hafa ótrúlegt dálæti á þeim fugli það er gæsinni. Vonandi stenst þessi veiðitúr væntingar.

Takið frá síðustu helgina í október vegna aðalfundar Víðförla. Hvor er betri föstudagur eða Laugardagur?

Kv. JM


Vatnamótin 8-10 október.

Sælir aftur ágætu félagar.

Næsti veiðitúr Víðförla verður 8-10 október og verður það sennilegasti síðasti veiðitúr ársins 2010. Þeir sem eru bókaðir í þann túr eru Axel, Varði, Jónas, Varði, Krummi, Guðmar, Tóti og vinur hans. Það er ef áhugi er fyrir hendi laust fyrir 2 í viðbót. Ég ætla að minna á að við veiddum ótrúlega vel á þessu svæði í vor og það suma mjög stóra. Við slepptum flestum fiskum með þeim skilaboðum að ganga nú til sjávar, éta mikið og koma svo aftur í haust og bíta á agnið þá stórir og sterkir. Vonandi gengur það eftir.

Verðið er 27.000.- fyrir manninn með fæði og húsnæði. Látið mig vita sem fyrst.

Kveðja JM.


Hvítá v/Iðu.

Sælir strákar.

Við Leifur fórum í gær til veiða í Hvítá v/Iðu með miklar væntingar. Því miður brugðust þær algerlega í þetta skiptið og komum við tómhentir heim. Þrátt fyrir svo sem ágætisveður miðað við árstíma (ískallt þegar sólar nýtur ekki við) þá voru öll skilyrði til þess að vera í góðum málum. Því miður þá sáum við ekki fisk fyrr en langt var liðið á dag og vonleysið orðið algjört. Það var nefnilega svo að þegar leið á daginn fór einn og einn fiskur að sýna sig en það fannst okkur ekki nóg en þá tók einn smáfiskur og við það lyftist brúnin á veiðimönnum. En því miður þetta var of lítið og of seint til þess að menn fengju veiðigredduna aftir. Samt ágætur túr með fínum veiðifélögum.

Kv. JM.


Laxá í Leir. ferðin.

Sælir félagar.

Þá er það smá frásögn um ferðina í Laxá nú um daginn. Mikill spenningur var í hópnum því talsvert hafði rignt bæði í Rvk. og uppí Borgarfirði þar sem ykkar ástkæri, ylhýri var í bústað um helgina. Það vissi bara á gott og líka var alveg ljómandi spá með ágætlega hlýju veðri og skúrum. Allt uppá það fínasta. Þeir sem fóru í þennan veiðitúr voru Hilmar, Þórir, Eyjó, Jónas, Eggert, Steini úr Víðförla og gestir voru Hjörtur, Ragnar, Skafti, Fróði, Árni, Þorvaldur, Snorri og Erna. Þegar þeir fyrstu mættu í veiðihúsið þá var hollið sem var að fara heim með öngulinn í rassinum og það fylgdi með að áin væri vatnslítil og fiskurinn tregur að taka. Vatnslítil eftir alla þessa rigningu? Jú en það hafði eiginlega ekkert rignt í Leirársveitinni heldur bara sitthvoru megin við en ekkert hjá þeim. Við nánari skoðun kom í ljós að það vantaði svona fet í ána til þess að allir veiðistaðir væru inni en það var lax víða í ánni. Þeir voru bara bölvaðir klaufar og kunnu ekkert. Kannist þið við þennan hugsunargang. Haldið var út til veiða og menn fullir bjartsýni og var áin barin í drep en ekkert gekk. Full á af fiski en því miður hann tók bara ekki en í lok fystu vaktar komu þó 2 tittir á land.Búið að redda túrnum. Sama gerðist morguninn eftir þrátt fyrir að það kæmu virkilega stórar og miklar dembur þá gerði það afskaplega lítið fyrir ána. Allt umhverfi árinnar var svo þurrt að þessar demur gerðu lítið annað en að vökva skraufþurran jarðveginn og vatnið kom eiginlega aldrei út í ána. Sem betur fer gránaði í fjöll um nóttina og þá óx aðeins í ánni. Það sem eftirlifði túrsins fóru menn loksins að veiða fisk og enduðum við í 22 löxum og nokkrum sjóbirtingum. Verður það að teljast velviðunandi miðað við hollið á undan. Ef allt hefði verið með felldu hefðum við fengið milli 30-40 fiska því það var sko nóg af fiski í ánni. Allstaðar þar sem ég kom til veiða bæði á merktum og ómerktum veiðstöðum sáum við fiska nema einum. Þegar ég fór að skoða veiðibókina kom í ljós að 7 júlí veiddist 1 fiskur í Holunni en það svo ekki fyrr en 17 ágúst sem næsti fiskur veiddist fyrir ofan Miðfellsfljót. Þið getið ýmyndað ykkur að allur fiskur sem fram til 17 ágúst veiddist á svæðum 1-3 og  það svæði náttúlega pakkað af fiski. Þegar maður rýnir betur í bókina kemur einnig í ljós að á þessum tíma kemur 70% af afla árinnar á þessum tíma úr Laxfossi og Miðfellsfljóti. Þið getið þá ímyndað ykkur hvað búið er að berja þessi veiðistaði allsvakalega. Það er kannski von því Miðfellsfljótið var pakkað af laxi sem bíður bara eftir hagstæðari skilyrðum til þess að ganga upp ána.

Þá er það veiðihúsið. Það hafði gerst það sem við Steini óttuðumst að búið var að skifta um gengi í eldhúsinu. Það kom glögglega í ljós fyrsta kvöldið þegar menn stóðu upp frá borðum ekki saddir en það kom ekki fyrir aftur því kokksi fékk sko að heyra það enda kom það ekki fyrir aftur. Að öðru leiti var allt uppá það fínasta eins og vant er og alveg frábær hópur sem náði mjög vel saman og hótuðu sumir að koma aftur að ári. Það er bara svona.

Þeir sem eiga myndir úr túrnum setjið þær inn.

Með veiðikveðju Jónas M.

 


Veiðisaga.

Sælir félagar.

það var gaman að lesa þessa sögu þeirra félaga os ekki skemmir að deila þessu svona á bloggsíðuna okkar. Vil ég nota þetta tækifæri til þess að hvetja ykkur til þess að nota síðuna meira. Segja okkur hinum frá veiðitúrum sem þið farið í, aflabrögð og fleira skemmtilegt sem er tengt veiði og annari útiveru.

Meira svona.

Kv. JM.

 


Veiðisaga

Sælir félagar

Verð bara að deila með ykkur smá veiðisögu - og jú hún er alsönn. Vorum að veiða saman í Ytri Rangá um daginn ég og Ási og hófum að morgni dags veiðar á Tjarnarbreiðu. Þar háttar þannig til að veitt er af grasbakka og eru ca 20-30 cm frá bakkanum niður að ánni. Hófum veiðar kl 7 og dró strax til tíðinda hjá Ása og um 7:05 var hann búinn að setja í fisk og hljóp ég til og náði í mannætuháfinn og skömmu síðar var laxinn kominn í háfinn.

Dró nú ekki til tíðinda í smá tíma og skiptumst við á að fara yfir hylinn með mismunandi flugur en eftir svona 30-40 mínútur setur undirritaður þó í fisk. Ási stekkur af stað og nær í stóra háfinn og gerir sig klárann og ég þreyti fiskinn en eftir stutta stund æðir fiskurinn að landi og keyrir sig að bakkanum og þrátt fyrir að hann sé ekki fullþreyttur segi ég við Ása "háfaðu bara kvikyndið" og auðvitað bregst hann við í snatri og háfar fiskinn. Þegar laxinn er kominn í háfinn þá kastar hann háfnum með fiskinum í að mér.

En þegar ég er að fara að slaka línunni út af hjólinu og búa mig undir að losa fiskinn úr háfnum bregður svo við að línan er enn þaninn í botn og fiskur á hinum endanum !!!!  Litum við félagarnir hvor á annann - eitt spurningarmerki í framan báðir tveir - og í nokkrar sekúndur vissum við ekki hvað væri í gangi - spriklandi fiskur í háfnum og annar á línunni - og svo byrjuðum við að hlægja - og hlógum og hlógum og hlógum svo svakalega að þetta er í eina skipti sem ég hef legið á jörðinni í krampakasti af hlátri ... með fmeð lax á. Að lokum stóðum við þó upp og ég þreytti fiskinn og í annarri tilraun háfaði Ási RÉTTANN fisk.

En hver er svo skýringin ?  Við erum enn að reyna að átta okkur á þessu því ekkert agn var í háfaða fiskinum og ekki var hann veiklulegur - þvert á móti. Málið er enn óleyst en hugsanlegar skýringar eru að okkar mati þessar:

1. Við erum svo miklir veiðimenn að laxarnir er farnir að átta sig á því að þegar við sjáumst á bakkanum er bara alveg jafn gott að spara sér vesenið og synda bara sjálfur í háfinn.

2. Ási sér svo hrikalega illa að hann háfaði vitlausann fisk.

3. Þetta voru laxafóstbræður af gamla skólanum - einn fyrir alla - allir fyrir einn og ef annar fer í háfinn fer hinn líka

Nú væri gaman að heyra hvort Víðförlafélagar hafa aðrar og betri/skemmtilegri skýringar.

Þakka þeim sem hlýddu og fyrirgefið þetta lítilræði.

Marteinn

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband