Salmon River, Pulaski ... eða eins og ég vill kalla hana Laxá í Pulaski

Sælir félagar

Í  nokkurra klukkustunda akstur norður af Manhattan er að finna eina frægustu laxveiðiá í austur-hluta Bandaríkjanna – Salmon River og er hún oft kennd við smábæinn Pulaski – sumsagt “Laxá í Pulaski”.

Það var mikil eftirvænting og spenningur þegar ég og veiðifélagi minn Pétur J. Petersen ókum af stað frá Manhattan síðastliðinn föstudag og Pétur að leggja í sinn fyrsta alvöru laxveiðitúr. Við áttum veiðar laugardag og sunnudag á svæði í ánni sem kallað er Douglaston Salmon Run. Veiðileyfi fyrir stöngina kostaði $45 á dag þannig að ekki er dýrtíðinni fyrir að fara og vorum við með sitt hvora stöngina báða dagana.

 

Í Salmon River ganga Coho lax, King Salmon og Steelhead auk þess sem eitthvað er af urriða og Atlantshafslaxi. Þar sem þetta var okkar fyrsta ferð vissum við lítið í hvað við vorum að fara og var veiðiplanið því að taka "íslensku leiðina” bara á þetta: túbuboxin með í för sem og hefðbundnar laxaflugur.

 

Klukkan 6 á laugardagsmorgni vorum við mættir á árbakkann og höfðum ákveðið að hefja veiðar í hyl sem heitir Joss Hole og er nokkuð hefðbundinn en frekar langur hylur sem rennur hraustlega í en breiðir svo úr sér og getur fiskur legið frá því þar sem fellur í hann og niður á brot. Við skyldum fljótlega betur verð veiðileyfa því í þessum hyl voru ásamt okkur að veiða svona 10-12 aðrir veiðimenn á báðum bökkum en sannaðist fljótt að í þessu sem öðru að þröngt mega sáttir sitja.

 

Bar nú fátt til tíðinda þar til um 10 leytið þegar fyrsta gangan kom …. og boyohboy kom ganga. Ég hef veitt um allar koppagrundir frá unga aldri en ég hef ALDREI nokkurn tíman séð annað eins. Við fylgdumst með löxum koma upp grynningar fyrir neðan hylinn ekki í tuga tali … í hundraða tali … hálfir upp úr ánni stökkvandi og byltandi sér og var þetta eins og að vera í miðri náttúrulífsmynd ala David Attenborough.

Og Joss Hole fylltist af laxi.

Hófust nú veiðar af miklu kappi … menn hrópuðu með reglulegu millibili “fish-on”, “going up”, “going down” og nú kom sér vel að veiðimenn eru kurteisir og samheldinn hópur því auðvitað þurftu menn að draga í land meðan nágranninn landaði. En “íslenska leiðin” var engan veginn að gera sig – allt í kringum okkur félagana var verið að setja í og landa fiskum, stundum margir með lax á í einu en við félagarnir fengum varla högg …  Þýska Snældan, Frances, Blue Charm, Sunray, Krafla og hvað þær heita allar þessar elskur hlutu akkúrat enga náð fyrir augum ammrískra Coho laxa.

 

Þegar líða fór á daginn og gæftaleysi okkar félaganna var farið að vera pínlegt og pirrandi siktaði ég út þann sem mér fannst vera afladrýgstur af veiðifélögum okkar í Joss Hole og næst þegar hann var búinn að landa og sleppa laxi vatt ég mér að honum og bar mig frekar aumlega. Charles - nýi vinur minn frá New Jersey - gaf sér tíma til að hjálpa vankunnugum Íslendingi. Lét mig umsvifalaust pakka saman túbunum og hefðbundnu laxaflugunum og lét mig opna töskuna með fluguboxunum. En það var ekki fyrr en fluguboxin mín úr Laxá í Þing opnuðust að kallinn taldi að ég ætti von: honum leyst vel á Þingeyjing, Hólmfríði, Rektorinn og svo taldi hann að Flæðarmúsin og Heimasætan gætu gert sig sem og Nobblerarnir mínir. Svo var mér kurteislega – en ákveðið - sagt að hætta þessum þverköstum og niðurfyrirmigköstum. “Marsstin; you always have to cast 10 o´clock to 2 o´clock and then lift … and use a heavy split shot on your leader” Þannig að ekki bara átti ég að nota flugurnar úr Mývatnssveitinni heldur átti ég að veiða upstream.

 

Til að gera langa sögu stutta þá forum við að sjálfsögðu í einu og öllu að ráðum þess gamla og það var eins og við manninn mælt – við fórum að setja í hann. Eftir þessa kennslustund í veiði (og hógværð) og þrotlausar æfingar á laugardeginum var sunnudagurinn dagurinn okkar og landaði ég 20-25 löxum og missti tugi annarra. Veiðifélagi minn náði Maríulaxinum – 16 punda hæng sem tók stóra Flæðamús og ekki amalegt að hefja ferillinn með svona alvöru laxi á flugu auk þess sem hann setti í fjölda annarra fiska.

 

Og ég get sagt það með góðri samvisku að Coho lax gefur þeim “íslenska” ekkert eftir í baráttuvilja og leikgleði og stærðin var alveg til fyrirmyndar. Mest laxar í kringum 15 pund en nokkrir minni en líka margir stærri og þó að við höfum nú ekki náð 20 punda múrnum þá sáum við nokkra 20-30 punda laxa dregna á land og þvílíkir drekar.

 

Leyfilegt er að taka sér til matar 3 laxa á dag og þrátt fyrir að burður á nokkrum 15/16 punda löxum í gegnum 3 km skóglendi sé engin sérstök skemmtiganga þá er það vel þess virði því bragðgóður er hann.

 

Og svo gengur Steelhead og King Salmon í október ……   Devil

kveðja - Marteinn

 

Setti inn nokkrar myndir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband