27.8.2010 | 04:28
Veiðisaga
Sælir félagar
Verð bara að deila með ykkur smá veiðisögu - og jú hún er alsönn. Vorum að veiða saman í Ytri Rangá um daginn ég og Ási og hófum að morgni dags veiðar á Tjarnarbreiðu. Þar háttar þannig til að veitt er af grasbakka og eru ca 20-30 cm frá bakkanum niður að ánni. Hófum veiðar kl 7 og dró strax til tíðinda hjá Ása og um 7:05 var hann búinn að setja í fisk og hljóp ég til og náði í mannætuháfinn og skömmu síðar var laxinn kominn í háfinn.
Dró nú ekki til tíðinda í smá tíma og skiptumst við á að fara yfir hylinn með mismunandi flugur en eftir svona 30-40 mínútur setur undirritaður þó í fisk. Ási stekkur af stað og nær í stóra háfinn og gerir sig klárann og ég þreyti fiskinn en eftir stutta stund æðir fiskurinn að landi og keyrir sig að bakkanum og þrátt fyrir að hann sé ekki fullþreyttur segi ég við Ása "háfaðu bara kvikyndið" og auðvitað bregst hann við í snatri og háfar fiskinn. Þegar laxinn er kominn í háfinn þá kastar hann háfnum með fiskinum í að mér.
En þegar ég er að fara að slaka línunni út af hjólinu og búa mig undir að losa fiskinn úr háfnum bregður svo við að línan er enn þaninn í botn og fiskur á hinum endanum !!!! Litum við félagarnir hvor á annann - eitt spurningarmerki í framan báðir tveir - og í nokkrar sekúndur vissum við ekki hvað væri í gangi - spriklandi fiskur í háfnum og annar á línunni - og svo byrjuðum við að hlægja - og hlógum og hlógum og hlógum svo svakalega að þetta er í eina skipti sem ég hef legið á jörðinni í krampakasti af hlátri ... með fmeð lax á. Að lokum stóðum við þó upp og ég þreytti fiskinn og í annarri tilraun háfaði Ási RÉTTANN fisk.
En hver er svo skýringin ? Við erum enn að reyna að átta okkur á þessu því ekkert agn var í háfaða fiskinum og ekki var hann veiklulegur - þvert á móti. Málið er enn óleyst en hugsanlegar skýringar eru að okkar mati þessar:
1. Við erum svo miklir veiðimenn að laxarnir er farnir að átta sig á því að þegar við sjáumst á bakkanum er bara alveg jafn gott að spara sér vesenið og synda bara sjálfur í háfinn.
2. Ási sér svo hrikalega illa að hann háfaði vitlausann fisk.
3. Þetta voru laxafóstbræður af gamla skólanum - einn fyrir alla - allir fyrir einn og ef annar fer í háfinn fer hinn líka
Nú væri gaman að heyra hvort Víðförlafélagar hafa aðrar og betri/skemmtilegri skýringar.
Þakka þeim sem hlýddu og fyrirgefið þetta lítilræði.
Marteinn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.