Ferðin í Staðará 25-27 júlí.

Sælir félagar, hér kemur smápistll og myndir úr seinni Staðará ferðinni. Ath. aðmyndirnar eru ekki í réttri tímaröð.

Lagt var af stað og mikill hugur í mönnum eins og alltaf þegar lagt er af stað í veiði þótt félögum okkar sem á undan fóru hafi ekki gengið sem skyldi. Veiðimenn eru algjört bjartsýnisfólk upp til hópa. Við komuna á staðinn urðu svolítil vonbrigði með nýja veiðihúsið því það var alltof lítið og vanbúið af búsáhöldum fyrir sex karla. Gert var gott úr öllu saman því við vorum með fellihýsi í farteskinu og gamla kofann svo það var vel rúmt um menn. Það var strax rokið til veiða því það var að flæða að og þá fyllist áin af fiski. Sáum nokkra smátitti stökkva víða um ána og nú var bara að bíða eftir sleðunum sem á eftir koma. Hva, það er að byrja að flæða út og enginn fiskur nema hjá þeim sem voru neðst í ánni þeir voru í fiski. Fljótlega í útfallinu var öllum tökum lokið og sjálfhætt þar sem kl. var orðin 10:00. Í umræðum um kvöldið voru menn sammála um að fiskurinn gekk ekki uppí ána einhverju hluta vegna. Morguninn eftir fóru Ásgeir og Alli út til veiða kl. 05:00 og þá gerðist það sama, fiskurinn kom í ósinn en ekki í ána. Þeir náðu 5 stk. Þann daginn var samt glímt við ána og laxinn og náðust nokkrir fiskar en enginn kom laxinn. Í flóðinu um kvöldið og morguninn eftir þá einblíndum við okkur að ósnum og þá fóru hlutirnir að gerast og veiddum við ágætlega og enduðum túrinn í 43 fiskum og var sá stærsti tæp 8 pund og tveir aðrir litlu minni. Veðrið alveg frábært logn, hlýtt, og sól öðruhvoru. Maturinn og félagsskapurinn meiriháttar en ég ætla að ræða við leyfissalann um aðbúnað í húsunum og panta fyrir næsta sumar.
Afli: Hilmar 10, Alli, 10, Jónas, 8, Varði 7, Ásgeir 4, Högni 3, og Atli 1 alls 43.

Kv. JM.


Staðaráin 23-27 júlí.

Sælir strákar.

Nú styttist heldur betur í veiðitúrana í Staðarána. Farið verður í tveimur hollum og fer fyrra hollið þann 23 júlí og hefja veiðar kl. 16:00 og veiða til kl. 13:00 þann 25 júli. Í þessu holli eru eftirtaldir Víðförlafélagar, Þórir, Leifur, Eggert, Mick, Krummi og Palli. Seinna hollið mun taka við og hefja veiðar kl. 16:00 þann 25 og veiða til kl 13:00 þann 27 júlí. Í þessu holli eru Hilmar, Varði, Jónas, Ásgeir, Skafti og Alli. Báðir þessir hópar eru vel mannaðir af vönum og óvönum veiðisnillingum og vonandi verður þetta bara skemmtilegir veiðitúrar. Vil ég hvetja menn til að reyna að fara á eins fáum bílum og hægt er því aðgengið að ánni er mjög auðvelt eins og þiö vitið.

 

Með veiðikveðju, JM.


Laugardalsá, ferðin.

Segi frá ferðinni fljótlega og einnig veiðiferð í Gufá nú nýverið

Næsta veiðiferð Víðförla er 23-25 júlí í Staðará. Þátttakendur eru Þórir. Mick. Eggert, Leifur, Krummi og einn gestur.  25 til 27  júlí taka við Steini, Ásgeir, Jónas, Skafti, Hilmar og Varði. Eins gott að þeir skilji eiffhvað eftir handa okkur ræflunum sem koma á eftir. þetta verður bara gaman.

 


Laugardalsá.

Sælir strákar.

Nú er farið að styttast í næstu Víðförlaferð og verður hún farin núna 26 - 29 júní n.k. Samkvæmt áræðanlegum upplýsingum og rannsókn ykkar  ágæta fyrrverandi formanns þá er lax genginn nú þegar í ána og hann hefur bæði sést og að sjálfsögðu veiðst líka. Það verður þá skemmtilegur plús þar sem við reiknuðum með að vera aðallega að veiða silung. Ég kannaði málið lítilega og komst að því að það virðist vera stofn í þessari á sem er mjög snemmgengur því það byrjar oft að veiðast fiskur þ.e. lax í kringum 10 júní. Þetta þýðir að við erum bara í fjandi góðum málum. Það er reyndar búið að banna maðkinn svo þá veiðir maður bara á fluguna og er það ekki vandamál. Þeir sem fara í þessa ferð eru Axel, Sigurpáll, Jónas, Finnbogi og 2 gestir. Við setjum inn myndir og lýsingu eftir ferðina.

Vill endilega minna þá sem eiga eftir að greiða félagsgjöldin að gera það sem fyrst. Þá er Krummi með frátekna dagana 30 ág.- 2 sept. fyrir okkur í Geirlandsána þannig að ef þið hafið áhuga endilega látið mig vita.

Kv. JM. 


Geirlandsá 2014 vor, ferðin.

Sælir félagar.

Þá er það ferðin í Geirlandsána. Miklar væntingar voru fyrir þessa ferð eins og reyndar alltaf þegar við förum í veiðitúr. Lögðum að stað í ágætu veðri og hófum veiðar í ágætu veðri en þar með er ágætt veður farið og það kom sannkallað skítaveður með miklum vatnavöxtum, flóðum og annari óáran sem maður vill ekki fá í veiðitúrum. En við létum það ekki á okkur fá og fengum 4 fiska fystu vaktina og þar af einn 11 punda sem Veiðihundurinn snaraði á land eins og honum er einum lagið. Daginn eftir skánaði veðrið aðeins fyrir hádegi en síðan fór það í stórsókn með lækkandi hitastig og gjörsamlega ausandi rigningu sem stytti fyrir okkur veiðitímann þann daginn um 3 klst. Þrátt fyrir það komu 5 fiskar á land þann daginn sem gerir alls 9 fiska. Hefði mátt vera meira en svona er þetta bara stundum. Gengur betur næst. Flottur félagsskapur, góður matur og fín útivera. Bið ekki um meira.  Komnar myndir í albúmið með texta.

Kv. JM. 

 


Geirlandsá.

Sælir félagar.

Eftir viku förum við í okkar fyrsta veiðitúr. Það skal haldið í Geirlandsána og þeir sem fara eru Skafti, Krummi, Jónas, Steini, Halli, Palli og Nökkvi helvíti flottur hópur. Spáin er góð og nú rífum við úr okkur veiðihrollinn og tökum þá nokkra. Þetta er flottur hópur eins og alltaf og ég segi bara nú tökum við hann og sleppum slápunum en hirðum geldfiskinn. Það er enn pláss fyrir einn. 

JM. 


Veiðisumarið 2014.

Sælir strákar.

Þá er þetta komið.

Geirlandsáin fyrst 5-7 apríl og þeir sem fara þangað eru Krummi, Palli, Jónas, Orri, Skafti, Halli, Guðmar og Steini. Flottur hópur.

Laugardalsá. 26-29 júní eru Finnbogi, Gústi, Jónas og Axel.

Staðaráin 24 - 27 Júlí, Krummi, Hilmar, Varði, Eggert, Leifur, Þórir Mick, Steini, Jónas, Finnbogi, Ásgeir og Skafti. (verður dregið í holl nú um helgina)

Gljúfuráin í Borgarf. 11-13 ágúst, Steini, Jónas, Krummi, Hilmar, Ásgeir og Alli.

Langá 6-8 sept. Jónas og Krummi enn er laust í þessa ferð en allt fullt í hinar. Ef einhverjir hafa áhuga að koma með í Langána endilega látið vita.

Kveðja og góða helgi.

H. + J. 

 


Hugleiðingar.

Sælir félagar.

Var að fletta 2 veiðibókum sem komu út fyrir síðustu jól (betra er seint en aldrei) og voru þær báðar alveg ágætis lesning. Það voru bækurnar Vötn og veiði og Silungur á Íslandi. Seinni bókin var bara mjög góð og ekki skemmdi að í henni er æðisleg mynd af tveim Víðförlafélögum við veiðar í Vatnamótum þ.e. Kristjáni Ólasyni og ykkar einlægum og eru þeir eins og vant er í góðum gír. Ég hvet ykkur til þess að kíkja í þessar bækur svona til þess að stytta biðina fram að fyrsta veiðidegi sem er 1 apríl. Fyrsti veiðitúr Víðförla verður annaðhvort 3 eða 5 apríl og er hann sennilega uppbókaður en ef einhver hefur áhuga þá endilega hafa samband.

Kv. JM. 


Næstu þrír veiðitúrar.

Sælir félagar.

þá eru komnir 3 veiðitúrar í viðbót það er í Gljúfurá í Borgarfirði 11-13 ágúst og svo í flotta ónefnda veiðiá á Snæfellsnesi en við erum með 2 holl samfelld 24-25-26-27 júlí. Hvað viljið þið hafa það betra. Þar fyrir utan veit ég að farið verður í Salmon river í september og er það orðið full mannað 7 stk. þá er Krummi að redda okkur fyrsta holli í Geirlandsána nú í vor væntanlega 1-3 apríl. Þar fyrir utan veit ég að margir Víðförlafélagar hafa verið að krunka sig saman og er ákveðin ferð í Langá 6-8 sept. (lausar stangir), Fremri Laxá á Ásum og væntanlega víðar. Ég veit að það a eftir að dúkka fleiri veiðitúrar en þetta er allvega skráð í dag. Nánar síðar.

JM. 


2014

Sælir félagar.   Það er með ólíkindum hve margir heimsækja okkur á síðuna og eins og þið sjáið þá eru innlitin yfir 100 þúsund. Fyrsti Víðförlatúrinn er klár og við förum í Laugardalsá það eru Sixpensarinn, Reddarinn, Hattarinn, Tvíhendan og 10 Pundarinn, aumingja fiskarnir. Þessi ferð er ekki að taka hvítuna úr augunum á okkur en samt við förum nú ekki á besta tíma en við verðum að veiða sko það er bara þannig. Þeir verða fleiri túrarnir hjá okkur í sumar. 

Kv. JM. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband